Grein DV um umferðarhávaða frá 10. mai 2003

Umferðarniður getur verið lífshættulegur

      Umferðarniður er ekki bara truflandi þegar hann er stöðugt í eyrunum, hann er einnig skaðlegur heilsunni. Ný rannsókn, sem þýska umhverfisráðuneytið lét gera, sýnir að fólk sem býr við miklar umferðaræðar þar sem umferðarhávaði er lítt skermaður af er í tvöfalt meiri hættu á að vera með of háan blóðþrýsting en aðrir sem t.d. búa í friðsælum íbúðahverfum, svo ekki sé talað um þá sem búa í götum þar sem ekki er gegnumakstur. Rannsóknin leiðir í ljós að allur umferðarniður umfram 55 desíbel er líklegur til að valda alvarlegur heilsuskaða

      Rannsóknin leiðir einnig í ljós að allur hávaði að degi til yfir 65 desíbel eykur líkurnar um 20% á að viðkomandi manneskja fái hjartasjúkdóma eða kransæðastíflu. Samkvæmt tilkynningu frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni WHO getur umferðarhávaði einnig valdið röskum á hormónastarfssemi og valdið stressi og svefntruflunum.

      Rannsóknarstofnun danska heilbrigðisráðuneytisins hefur varað við áhrifum umferðarniðs á börn sem getur við talsvert lægri nið en 55 desíbel valdið truflunum á námi og einbeitingu sem m.a. kemur fram í því að minni barnanna bíður skaða af. Danska umhverfisráðuneytið bendir á að þar í landi falli íbúðarverð um 1,2% við hvert eitt desíbel sem umferðarniðurinn eykst umfran 55 desíbel. Um ein milljón Dana, eða um fimmtungur þjóðarinnar, þarf að þola meira en 55 desíbela hávaða, sem eru viðmiðunarmörk dönsku umhverfissamtakanna. Og um 150.000 manns, flestir í Kaupmannahöfn, eru þrúguð af meiri en 65 desíbela hávaða. 65 desíbela hávaði svara til þess að viðkomandi flytji sig úr stofunni niður á miðja hraðbraut.

      Svava Steinarsdóttir hjá Umferðar- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur segir að í hávaðareglugerð séu sett ákveðin mörk fyrir umferðarhávaða sem ber að stefna að. Það eru 55 desíbel við húsvegg. Í nýskipulagi er hins vegar stefnt að 45 desíbelum. Við breytingar á umferðaræð kann hins vegar að vera farið upp í undanþágur sem eru allt að 75 desíbelum. Borgarverkfræðingur lét árið 1998 gera skýrslu um hvaða svæði í borginni væru helst undir álagi. Borgarráð samþykkti í júnímánuði 2001 reglum um úthlutun hljóðvistarstyrkja, þar sem aðallega er verið að fjalla um hljóðeinangrun íbúðarhúsnæðis með t.d. þreföldu gleri (einnig eru til aðrar aðferðir). Þar sem umferðarhávaði mælist meiri en 71 desíbel er veittur styrkur á tafar til úrbóta sem getur numið 70% af kostnaði, í 2. flokki þar sem umferðarniður mælist 68 til 71 desíbel, getur tekið allt að einu ári að fá styrk sem numið gæti allt að 60% af kostnaði og í 3. flokki, þ.e. 65 til 68 desíbela umferðarniður, getur tekið allt að fjórum árum að fá styrk sem getur numið allt að 50% af kostnaði. Stuðst er við niðurstöður útreikninga umferðardeildar borgarverkfræðings þegar metið er í hvaða flokki hver íbúð lendir. Miðað er við jafngildirhljóðstig utan við vegg eða glugga í íbúð.

      „Það fer vaxandi að beðið sé um mælingar vegna hljóðmengunar og í flestum tilfellum eru þessar kvartanir á rökum reistar, þ.e. hávaðinn fer yfir 55 desíbela mörkin, en hann fer ekki alltaf upp í styrkhæfni. Íbúar Reykjavíkurborgar eru að verða meðvitaðri um það að ekki ber að þola hvaða hávaða sem er frá umferðinni og leita til yfirvalda. Í nokkrum tilfellum hefur Reykjavíkurborg gert hljóðmanir og einna stærst er sú sem var gerð til að taka við umferðarnið frá Kringlumýrarbraut vegna Suðurhlíðahverfissins,“ segir Svava Steinarsdóttir